Thorvaldsens Bazar
Austurstræti 4, 101 Reykjavík, Iceland, Reykjavík
Thorvaldsensfélagið hefur alla tíð haft mörg járn í eldinum við fjáröflun, svo sem rekstur Thorvaldsensbazars, útgáfu og sölu jólamerkja, jólakorta, gjafakorta og minningarkorta. Einnig hefur félagið útgáfu- og dreifingarrétt á bókinni Karíus og Baktus, eftir Torbjörn Egner, á Íslandi.
Engin félagskona fær greitt fyrir vinnu sína, en ef hægt er að meta ánægju af samstarfi og vináttu til launa, þá eru þau ríkuleg. Það er gæfa Thorvaldsensfélagsins að stjórnendur fjölmargra fyrirtækja og stofnana, sem og samborgararnir veita félaginu ómetanlegan stuðning með viðskiptum sínum og hafa með því hjálpað til við að létta undir með þeim er minna mega sín í þjóðfélaginu. Thorvaldsensfélagið hefur alla tíð borið hag barna fyrir brjósti, lét meðal annars byggja vöggustofu árið 1963 og dagheimili 1968 sem félagið gaf til borgarinnar.
Í áraraðir hefur Thorvaldsensfélagið styrkt barnadeildina sem var á Landakoti og síðar á Landspítalanum í Fossvogi til tækjakaupa og annarra hluta er þörf hefur verið á, en eftir að þær voru lagðar niður stofnaði félagið sérstakan sjóð við Barnaspítala Hringsins til styrktar sykursjúkum börnum og unglingum með 10 milljón króna framlagi. Félagið styrkir einnig fjölskyldur veikra barna, unglingastarf, vímuvarnir,verkefni í þágu aldraðra og margs konar landssafnanir.
